Lög

LÖG BJÖRGUNARSVEITAR HAFNARFJARÐAR

1. grein.

Björgunarsveitin heitir Björgunarsveit Hafnarfjarðar og hefur aðsetur í Hafnarfirði. Sveitin er aðili að Slysavarnafélaginu Landsbjörg.

Kjörorð sveitarinnar er. Ávallt viðbúin.

2. grein.

Tilgangur sveitarinnar er að vinna að hverskonar björgunar- og leitarstörfum. Að þjálfa félaga sveitarinnar sem best til björgunarstarfa og koma upp nauðsynlegum búnaði.

3. grein.

Stjórnun sveitarinnar er í höndum stjórnar. Stjórn sveitarinnar skal skipuð sjö mönnum, formanni, varaformanni, gjaldkera, ritara, aðstoðar gjaldkera og tveimur meðstjórnendum. Stjórn skal nánar skipta með sér verkum að loknum aðalfundi. Stjórnarmenn skulu kosnir til eins árs í senn. Auk þess skulu kosnir fyrsti og annar varamaður sem kalla skal til starfa í stjórn ef stjórnarmaður forfallast.

4. grein.

Aðalfundur sveitarinnar skal haldinn í mars eða apríl ár hvert. Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

1. Kosning fundarstjóra og fundarritara

2. Fundargerð síðasta aðalfundar lesin upp og borin undir atkvæði.

3. Skýrsla stjórnar um starf sveitarinnar. Skal hún vera fjölrituð eða prentuð í formi ársrits.

4. Fjárhagsskýrsla gjaldkera.

5. Umfjöllun um ársreikninga og þeir bornir undir atkvæði.

6. Skýrslur formanna flokka, nefnda og umsjónarmanna unglingadeildar. Skýrslum þeirra ber að skila skriflega til stjórnar viku fyrir aðalfund.

7. Inntaka nýrra félaga.

8. Lagabreytingar, enda hafi þess verið getið í fundarboði að þær yrðu á dagskrá.

9. Kosning stjórnar, sbr. 3. gr. laga þessara. Formaður, varaformaður, gjaldkeri, ritari og aðstoðar gjaldkeri skulu kosnir sérstaklega, en meðstjórnendur í einu lagi. Þá skulu varamenn kosnir sérstaklega.

10. Kosning laganefndar og uppstillingarnefndar. Skulu þær skipaðar þrem mönnum hvor auk varamanns.

11. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga og tveggja til vara.

12. Ákvörðun árgjalds.

13. Önnur mál.

5. grein.

Reikningsár sveitarinnar skal miðast við almannanaksárið.

6. grein.

Stjórn hefur heimild til að setja reglugerðir.

7. grein.

Sveitin starfar að land- og sjóbjörgun.

8. grein.

Sveitin starfar í tengslum við Skátafélagið Hraunbúa, slysavarnadeildina Hraunprýði, ásamt klúbbum eldri félaga Hjálparsveitar skáta Hafnarfirði og Björgunarsveitar Fiskakletts. Sveitin gerir það sem í hennar valdi stendur til þess að hlúa að og styrkja starf þessara deilda.

9. grein.

Aðalfundur skal boðaður með minnst tveggja vikna fyrirvara af hálfu stjórnar sveitarinnar, með áberandi auglýsingu í húsakynnum sveitarinnar og ennfremur með opinberri auglýsingu eða bréfi til félagsmanna.

Aðalfundur telst lögmætur, sé löglega til hans boðað. Allar tillögur til lagabreytinga sem leggja á fram á fundinum skulu hafa borist til laganefndar fyrir 10. febrúar. Tillögur að uppstillingu og lagabreytingu(m) skulu auglýstar í húsakynnum sveitarinnar minnst viku fyrir aðalfund.

10. grein.

Enginn getur orðið fullgildur félagi í sveitinni fyrr en 18 ára aldri er náð. Stjórn setur reglugerðir um inngöngu í sveitina og um nýliðaþjálfun.

11. grein.

Árgjald sveitarinnar skal ákveðið á aðalfundi. Félagar sveitarinnar sem ekki hafa greitt árgjald hafa hvorki kjörgengi né atkvæðisrétt á aðalfundi.

12. grein.

Ef björgunarsveit Hafnarfjarðar hættir störfum skulu eignir hennar verða í vörslu Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Eigi er Slysavarnafélaginu Landsbjörg heimilt að ráðstafa þessum eignum nema til uppbyggingar björgunar og hjálparsveitar í Hafnarfirði.

13. grein.

Lög þessi öðlast þegar í stað gildi.

Hafnarfirði 3. júní 2020.