Archive for the “Námskeið” Category

Perla, blóðhundur í eigu BSH, að spora, mynd Alis Dobler
Perla að spora, mynd Alis Dobler

Dagana 18.-20. apríl s.l. hélt BSH sporanámskeið fyrir hundamenn og teymi. Leiðbeinandi var Alis Dobler hundaþjálfari frá Sviss með menntun frá GAK9 í Bandaríkjunum. Námskeiðið var haldið í Hfn og nágrenni. 6 hundateymi tóku þátt og 4 áhorfendur voru með allan tímann auk þess sem örfáir aðrir gestir kíktu við í stuttar heimsóknir. Þátttakendur voru ma. frá BSH (3), Bjsv. Ársæl Rvk (1), Bjsv. Sigurvon (1), Bjsv. Skagfirðingasveit (1), Hjsv. Skáta Garðabæ (2) og 2 voru utan sveitar.

Námskeiðið hófst á laugardegi í björgunarmiðstöðinni Klett í Hfn þar sem Alis fór í gegnum kynningu á sér og fyrirkomulagi námskeiðsins, þátttakendur kynntu sig svo og sögðu frá reynslu sinni og hundsins síns. Farið var með hópinn á Vigdísarvelli og Krísuvíkurleið þar sem lögð voru grunnspor á lítið megnuðu svæði til að sjá grunnþekkingu hundanna og stöðu teymanna. Fljótlega eftir hádegi fengum við uppkall og útkallsbeiðni á TETRA þar sem við vorum nálægt slysstað. Spori Ásbjörn og Ársæll Theodór voru næstir og fóru til að kanna aðstæður. Á vettvangi, sem var eingöngu nokkur hundruð metra frá okkur, blasti við þeim bifreið sem oltið hafði af veginum og var gjörónýt og eldri hjón sem komist höfðu úr bifreiðinni. Ásbjörn og Theodór veittu hjónunum fyrstu hjálp en þau voru í miklu sjokki og kvörtuðu undan eymslum í baki og hálsi, um var að ræða erlenda ferðamenn. Ásbjörn og Theodór hlúðu að hjónunum þar til lögregla og sjúkabifreið komu á vettvang og tóku við.  Seinni partinn færðum við okkur í Vallarhverfið og vorum í iðnaðarhluta hverfisins. Þar sem auðveld grunnspor voru lögð fyrir teymin og geta hundanna á malbiki skoðuð.

Sunnudeginum var öllum eytt í borgarlandslagi og með hörðu undirlagi. Farið var í gegnum grunnaðferðir í sporlagningu og rakningu á hörðu yfirborði og hvernig aðstæður vinna með hundinum og hvernig leggja má spor gagngert til þess að hann upplifi og læri ómeðvitað hvar líklegast sé að finna slóð eða spor eftir manneskju við erfiðar aðstæður. Allir þátttakendur fengu verkefni við sitt getustig.

Mánudeginum var tvískipt, fyrri hlutanum var varið í íbúðarhverfi og í kringum Víðistaðatún með öllum þeim truflunum sem borgarlandslag býður upp á. Hundarnir réðu misvel við þær aðstæður og þurftu sumir frá að hverfa og færast í auðveldari verkefni. Síðari hluta dagsins var varið við æfingar upp við Garðaholt þar sem áreitið og erfiðleikastigið var aftur lækkað og öll teymin fengu krefjandi verkefni sem gat ekki misheppnast til þess að allir færu heim með jákvæða minningu af verkefnunum.

Lærdómurinn af námskeiðinu var mikill, einkum má segja að aðferðir við sporlagningu skipta mestu máli í upphafi þjálfunar og að erfiðleikastigið sé ekki aukið of þétt til þess að hundurinn missi ekki sjálfstæðið eða getuna til að leysa verkefnið og þurfi að leita til eiganda eftir stuðning eða handleiðslu. En eitt það besta var að við vorum með hunda af öllum stigum, hund sem aldrei hafði sporað og allt upp í þaulvana sporara svo við fengum að sjá og upplifa mörg erfiðleika- og þjálfunarstig. Þá fengum við að sjá ólíkar aðferðir við að verðlauna hunda fyrir vinnu og farið var í gegnum mikilvægi á að finna réttan hvata/verðlaun fyrir hundana. Við kynntumst öðrum hundamönnum sem geta unnið með okkur í framtíðarverkefnum og hjálpað hvort öðru að komast á næsta stig þjálfunar.

Björgunarsveit Hafnarfjarðar þakkar öllum þátttakendum fyrir komuna, Alis Dobler kærlega fyrir að koma og leiðbeina og Icelandair Hotels fyrir veittan stuðning.

Ætlunin er að endurtaka námskeiðið í maí/júní 2016 og einnig halda áfram með teymin þar sem frá var horfið.

Fleiri myndir frá námskeiðinu má m.a. finna á Facebook.

Perla fær verðlaunin sín, mynd Alis Dobler

Perla fær verðlaun fyrir að spora uppi mann, mynd Alis Dobler

 

 

Comments Comments Off on Sporhundanámskeiði lokið

Dagana 18.-20. apríl n.k. verður sporhundaþjálfari á landinu á vegum Björgunarsveitar Hafnarfjarðar frá GAK9 (USA) og K-9 SEARCH & RESCUE ASSOCIATION (K-9 SRA) í Sviss. Á námskeiðinu verður einkum farið í sporaleit á fjölförnum svæðum sbr. innanbæjarleitir með áherslu á „trailing“ þjálfun eða sporrakningu á hörðu yfirborði. Áhersla er lögð á að aðstoða þjálfarann við að þekkja sporahegðun hunda og lesa í aðstæður.  5-6 hundateymi komast að á námskeiðinu og amk. 10 áhorfendur. Þátttakendur þurfa ekki að hafa reynslu af sporavinnu og allar hundategundir eru velkomnar.

Um þjálfarann:
Alis Dobler er með Mastersgráðu frá háskólanum í Lausanne í réttarvísindum og starfar með lögreglunni í Zurich í Sviss. Alis hefur verið viðloðandi hundaþjálfun frá unga aldri og lauk hundaþjálfaranámi 2008, í kjölfarið hóf hún að þjálfa sporhunda og lauk kennsluréttindum frá GAK9 í Bandaríkjunum 2013. Hún er með réttindi til að leita að týndu fólki og til sérhæfðrar leitar að flóttamönnum og vopnuðum og hættulegum aðilum, auk þess að hafa leiðbeinenda- og dómararéttindi fyrir sporaleit. Alis vinnur með blóðhund í dag en hefur unnið með fleiri tegundir.

Námskeiðið fer fram á höfuðborgarsvæðinu.
3 dagar 18.-20. apríl verð 35.000 kr. pr. teymi.
Áhorfendur án hunds verð 10.000 kr.

Nánari upplýsingar veitir Kristín í síma 8684136 / kristin@leitarhundar.is
Skráning óskast send á netfangið með upplýsingum um hundateymið eða áhorfandann.

Áhugavert fyrir þátttakendur að skoða: www.gak9.com,  www.k9-manhunters.ch og www.k9-sra.ch

Comments Comments Off on Sporanámskeið 18.-20. apríl 2015

Nokkuð var að gera um þessa helgi hjá Björgunarsveit Hafnarfjarðar. Tækjamót SL var haldið í Hvanngili og  fóru 11 manns á 2 sveitarbílum og að auki á nokkrum einkabílum á mótið. Í hópnum voru  sex sleðamenn, tveir á fjórhjólum og svo var einn jeppahópur. Farið var úr húsi á föstudeginum og komið til baka aðfaranótt sunnudags. Björgunarsveitin Kyndill og Björgunarsveitir úr Rangárvallarsýslu skipulögðu mótið og eru færðar bestu þakkir fyrir það. Einnig voru fimm meðlimir Björgunarsveitar Hafnarfjarðar á námskeiðinu Fjallamenska tvö þar sem þeir lærðu allskyns nytsamlegt á fjöllum s.s. að setja upp tryggingar bæði í ís og í fjalllendi einnig var farið í ferla klettaklifurs og ísklifri og kennd var helsta tækni í því. Þá voru undanfarar sveitarinnar kallaðir út á laugardaginn vegna manns í sjálfheldu á Helgarfelli.

Spori 2 á Tækjamóti (Mynd: Andri Rafn Helgason)

 

Comments Comments Off on Önnur annasöm helgi hjá BSH

Félagar sveitarinnar stóðu í ströngu síðastliðna helgi. Nýliðar fóru í vetrarferð þar sem gist var í snjóhúsum. Sleðaflokkur fór í æfingarferð í Bláfjöllum. Kristín og sporhundurinn Perla fóru á æfingu með leitarhundum SL á Ólafsfirði. Tveir meðlimir sjóflokks BSH voru á áhafnarnámskeiði björgunarskipa.  Einnig var  einn meðlimur sveitarinnar á fimm daga fagnámskeiði í fjallamennsku sem lauk á sunnudagskvöld.

Ísklifur í Villingadal á fagnámskeiði í fjallamensku

Comments Comments Off on Annasöm helgi hjá Björgunarsveit Hafnarfjarðar

Sex manns úr fjarskiptahópi sveitarinnar sóttu fagnámskeið í fjarskiptum á vegum björgunarskólans  6. – 10. febrúar sl. í húsnæði Hjálparsveitar Skáta í Kópavogi. Farið var yfir fjarskiptakerfi björgunarsveitanna, virkni VHF og Tetra, möguleikana á að tengja kerfi saman og hvernig hægt er að koma á sambandi á svæðum þar sem er lélegt eða ekkert fjarskiptasamband.

Myndina tók Guðmundur Ólafsson (HSSK)

Myndina tók Guðmundur Ólafsson (HSSK)

 

Comments Comments Off on Fagnámskeið í fjarskiptum

Í gærkvöldi var haldið námskeiðið Sálræn hjálp sem er hluti af Björgunarmanni 2 hjá Björgunarskólanum. Markmið námskeiðsins er að gera björgunarsveitamenn meðvitaða um það andlega álag sem fylgt getur björgunarsveitastarfi, þá áhættu sem starfinu getur fylgt og að veita upplýsingar um leiðir til hjálpar og um hjálparaðila.

Milli 20 og 25 félagar tóku þátt í námskeiðinu en Einar Örn var fenginn til að kenna námskeið fyrir sveitina.

Comments Comments Off on Sálræn hjálp