Archive for the “Bílaflokkur” Category

RaggaÞann 22. desember barst okkur bréf frá Suðurpólnum. Ragnheiður Guðjónsdóttir félagi í Björgunarsveit Hafnarfjarðar til margra ára og fyrrum formaður bílaflokks sendi okkur skeyti um að hún væri komin á Pólinn. Ragga er kjarnakona og er hún fyrsta íslenska konan til að keyra á Suðurpólinn, með 3000km að baki og nærri búin að krossa heimsálfuna til að komast þangað. Ragga er á Pólnum á vegum Arctic Trucks og ferðast hópurinn á þremur Toyota Hilux, einum 4×4 bíl og tveimur 6×6 bílum, tilgangurinn er að fylgja eftir 6 manna skíðahópi frá Tævan.

Ragga er svo gott sem alinn upp í sveitinni en og eins og hún sagði sjálf frá þá var það jeppabrasið í björgunarsveit Hafnarfjarðar sem kom henni alla leið á Suðurpólinn. Við erum stolt af að eiga í okkar ranni slíkan öflugan félaga sem valdir eru til að sinna mikilvægum og einstökum verkefnum. Enn stoltari erum við að Raggi hafi tekið með sér fána sveitarinnar og flaggað honum á Suðurpólnum, sveitinni til heiðurs.

Eins og Ragga sagði sjálf í skeytinu til okkar:
“Sendi ykkur mínar bestu kveðjur héðan af Suður pólnum og auðvitað tók ég fánan okkar með.
Ég tók hann með af gildri ástæðu, ekki bara að ég sé félagi í Björgunarsveit Hafnarfjarðar. Heldur fyrir 10 árum byrjaði ég mitt jeppa bras hjá sveitinni. Þetta bras kom mér hingað, á Suður pólinn.
Og nú er ég fyrsta Íslenska konan til að keyra á suður pólinn með 3000km að baki og er nærri búin að krossa heimsálfuna, fram og til baka.

….. Í dag hef ég verið á ferðalagi herna í 47 daga af 62 dögum. Styttist óðum í heimkomu.”

Ragga er ekki bara björgunarsveitamaður heldur sjúkraflutninga- og slökkviliðsmaður. Arctic Trucks eru heppnir að hafa fengið hana með í ferðina. Eins mikil kjarnakona og Ragga er þá er þetta eflaust ekki það síðasta sem þið fáið að heyra af henni. Við erum glöð að vita að hún er lögð af stað heim og hlökkum til að fá hana aftur.

ragga6 ragga5 Ragga4 ragga3 ragga2 Ragga

 

Comments Comments Off on Ragnheiður pólfari

Neyðarkall 2018

Neyðarkall ársins

Nú er Neyðarkallasalan 2018 langt komin. Félagar í Björgunarsveit Hafnarfjarðar stóðu vaktina dagana 1.-3. nóvember síðast liðinn og seldu lyklakippuna Neyðarkall í öllum helstu verslunum í Hafnarfirði, salan gekk afar vel enda er okkur alltaf vel tekið af Hafnfirðingum.

Í tilefni 90 ára afmælis Slysavarnarfélagsins Landsbjargar minnumst við liðinna tíma og er kallinn klæddur í stíl fyrri tíma, gulan stakk og með broddstaf. Allar lyklakippur seldust upp hjá okkur rétt um kl. 15 á laugardeginum en vegna mikillar eftirspurnar höfum við pantað nokkra auka litla kalla og geta áhugasamir nálgast þá með því að hringja í 565-1500 eða senda okkur tölvupóst. Einnig fengum við tvær vinasveitir af landsbyggðinni í heimsókn og stóðu bæði Björgunarfélagið Blanda og Björgunarsveitin Strandasól með okkur á völdum stöðum.

Einng vorum við með stóra neyðarkallinn líkt og fyrri ár, sala á þeim hefur gengið vonum framar enda eigum við marga góða bakhjarla í fyrirtækjum bæði í Hafnarfirði og á höfuðborgarsvæðinu. Í ár sem endranær svöruðu Hafnfirðingar kallinu. Þeir sem vilja nálgast stóran neyðarkall mega hafa samband með tölvupósti á netfangið starfsmadur@spori.is

Fjáröflunin er sveitinni afar mikilvæg og stendur ásamt öðrum fjáröflunum undir árs rekstrarkostnaði einingarinnar. Þökkum kærlega stuðninginn og velviljann um helgina.

Við höfum sett nokkrar myndir í myndasafn inn á opna Facebook síðu sveitarinnar. Myndir eru stöðugt að bætast við safnið enda voru þetta skemmtilegir dagar.

Comments Comments Off on Neyðarkall 2018

Nokkuð var að gera um þessa helgi hjá Björgunarsveit Hafnarfjarðar. Tækjamót SL var haldið í Hvanngili og  fóru 11 manns á 2 sveitarbílum og að auki á nokkrum einkabílum á mótið. Í hópnum voru  sex sleðamenn, tveir á fjórhjólum og svo var einn jeppahópur. Farið var úr húsi á föstudeginum og komið til baka aðfaranótt sunnudags. Björgunarsveitin Kyndill og Björgunarsveitir úr Rangárvallarsýslu skipulögðu mótið og eru færðar bestu þakkir fyrir það. Einnig voru fimm meðlimir Björgunarsveitar Hafnarfjarðar á námskeiðinu Fjallamenska tvö þar sem þeir lærðu allskyns nytsamlegt á fjöllum s.s. að setja upp tryggingar bæði í ís og í fjalllendi einnig var farið í ferla klettaklifurs og ísklifri og kennd var helsta tækni í því. Þá voru undanfarar sveitarinnar kallaðir út á laugardaginn vegna manns í sjálfheldu á Helgarfelli.

Spori 2 á Tækjamóti (Mynd: Andri Rafn Helgason)

 

Comments Comments Off on Önnur annasöm helgi hjá BSH

Í gærkvöldi stóð bílaflokkur í dekkjaskiptum á Spora 2. Bíllinn sem er af gerðinni Toyota Land Cruiser 80 hefur verið á 44″ dekkjum undanfarið en ákveðið var að setja hann á stærri dekk til að halda í við þróun jeppaflota landans. Með stærri dekkjum eykst drifgeta flokksins til muna og við komumst hraðar yfir. Það er von okkar að þessi breyting muni skila sér vel í starfi flokksins sem og sveitarinnar.

Comments Comments Off on Spori 2 settur á 46″ dekk

Í gærkvöldi stóð bílaflokkur Hjálparsveitar skáta í Garðabæ fyrir opinni æfingu fyrir bílaflokka á svæði 1. Þrír félagar úr bílaflokk BSH tóku þátt í æfingunni ásamt hópum frá HSSR, HSSK og HSG. Að þessu sinni var æfingin haldin á Hellisheiðinni og meðal verkefna var að spila bíl uppúr á, rétt notkun á drullutjakk og leit úr bíl.

Æfingin er þáttur í því að auka samstarf bílaflokka á svæði 1 og verða opnar æfingar á vegum bílaflokks HSG annan hvern mánuð í vetur.

Comments Comments Off on Bílaflokkur á æfingu