Archive for the “Sjóflokkur” Category

Neyðarkall 2018

Neyðarkall ársins

Nú er Neyðarkallasalan 2018 langt komin. Félagar í Björgunarsveit Hafnarfjarðar stóðu vaktina dagana 1.-3. nóvember síðast liðinn og seldu lyklakippuna Neyðarkall í öllum helstu verslunum í Hafnarfirði, salan gekk afar vel enda er okkur alltaf vel tekið af Hafnfirðingum.

Í tilefni 90 ára afmælis Slysavarnarfélagsins Landsbjargar minnumst við liðinna tíma og er kallinn klæddur í stíl fyrri tíma, gulan stakk og með broddstaf. Allar lyklakippur seldust upp hjá okkur rétt um kl. 15 á laugardeginum en vegna mikillar eftirspurnar höfum við pantað nokkra auka litla kalla og geta áhugasamir nálgast þá með því að hringja í 565-1500 eða senda okkur tölvupóst. Einnig fengum við tvær vinasveitir af landsbyggðinni í heimsókn og stóðu bæði Björgunarfélagið Blanda og Björgunarsveitin Strandasól með okkur á völdum stöðum.

Einng vorum við með stóra neyðarkallinn líkt og fyrri ár, sala á þeim hefur gengið vonum framar enda eigum við marga góða bakhjarla í fyrirtækjum bæði í Hafnarfirði og á höfuðborgarsvæðinu. Í ár sem endranær svöruðu Hafnfirðingar kallinu. Þeir sem vilja nálgast stóran neyðarkall mega hafa samband með tölvupósti á netfangið starfsmadur@spori.is

Fjáröflunin er sveitinni afar mikilvæg og stendur ásamt öðrum fjáröflunum undir árs rekstrarkostnaði einingarinnar. Þökkum kærlega stuðninginn og velviljann um helgina.

Við höfum sett nokkrar myndir í myndasafn inn á opna Facebook síðu sveitarinnar. Myndir eru stöðugt að bætast við safnið enda voru þetta skemmtilegir dagar.

Comments Comments Off on Neyðarkall 2018

Verið að hjálpa Gumma að græja sig fyrir köfunSeinustu tvær helgar hefur verið nóg um að vera í Njarðvíkurhöfn en kafarar frá SL hafa verið þar á leitarköfunarnámskeiði.
Nokkur ár eru síðan að seinast var haldið námskeið í leitarköfun og því kærkomið að fjölga aðeins í hópunum og fá inn nýja meðlimi.

Að þessu sinni tóku tveir kafarar frá BSH, þau Guðmundur Sveinbjörn og Elíza Lífdís, þátt, sem og þrír kafarar frá BSS. Í heildina vorum við þó mest 11 með leiðbeinendum, línumönnum og bátafólki og því ljóst að kafarar þurfa að vera í góðu samstarfi við sjóflokk.

Námskeiðið gengur eins og nafnið gefur til kynna að miklu leiti út á það að kafa og leita en þó eru margir þættir sem að þarf að hafa á hreinu áður en stokkið er út í.
Í leitarköfun er kafarinn tengdur við yfirborðið með línu þar sem að svokallaður línumaður (e. tender) heldur í hinn endann og hefur samskipti við kafarann með línumerkjum. Æfðum við þau í þurræfingum á landi áður en haldið var niður á bryggju.

Línumaður sér um að fylgjast með því hvað kafarinn er að gera, að hann sé að leita það svæði sem að honum er ætlað að leita, gefa honum leiðbeiningar hvert hann á að fara og gæta öryggis kafarans. Allir kafara æfa sig í að vera línumenn og þjálfast þannig í því að vera á báðum endum.

Kafararnir þurfa einnig að æfa sig í því að leita í litlu sem engu skyggni og að starfa sem línumenn við misgóðar aðstæður.
Sú var einmitt raunin seinustu helgi þegar við fengum allt frá glampandi sól og logni (já þið lásuð rétt, það var logn á Reykjanesinu) yfir í slyddu og lemjandi norðaustanátt. En það er nú bara veruleikinn sem að við búum við og því ágætt að þjálfast í því hvernig við tökumst á við mismunandi veðráttu enda að ýmsu að hyggja þegar þú ert með blautan kafara sem að þarf að bíða uppi á bryggju á milli kafanna.

Seinasta daginn á námskeiðinu höfðu Suðurnesjamenn komið bíl fyrir í höfninni og fengum við að kafa í hann og æfa okkur á þeim aðstæðum.

Náið samstarf er á milli köfunarhóps og sjóflokks BSH enda samofið starf við leit á sjó. Allir meðlimir köfunarhóps BSH starfa einnig sem sjóflokksmeðlimir og er hópurinn því þéttur. Köfunarhópur BSH samanstendur nú af sjö köfurum með mis mikla reynslu, allt frá rúmu ári upp í áratugi og er það von okkar að hópurinn haldi áfram að dafna.

Þökkum við Suðurnesjasveitinni kærlega fyrir samvinnuna á námskeiðinu sem og leiðbeinendum fyrir vel heppnaðar helgar á hafsbotni.

Comments Comments Off on Nýir leitarkafarar

-Leki um borð í seglskútunni FALADO VON RHODOS

Frásögn Odds Arnars Halldórssonar skipstjóra á björgunarskipinu Einar Sigurjónssyni.

Þann 8. ágúst klukkan 23:20 barst neyðarkall frá seglskútunni Falado Von Rhodos sem stödd var um 16 sjómílur vest-norð vestur af Garðskaga með 12 manns um borð. Vaktstöð siglinga tók á móti neyðarkallinu sem samstundis var áframsent til skipa og báta sem gætu verið á svæðinu.

Björgunarskipið Hannes Þ. Hafstein í Sandgerði var á þessum tíma í viðhaldsstoppi og því var björgunarskipið Einar Sigurjónsson frá Hafnarfirði kallað út. Jafnframt var ákveðið að kalla út minni og hraðskreiðari báta frá björgunarsveitunum Suðurnes, Sigurvon í Sandgerði og Ægi í Garði auk þyrlu Landhelgisgæslunnar TF-GNÁ.

Veður á staðnum var austan 10 til 12 metrar, gott skyggni en allnokkur sjór. Klukkan 23:35 kallar skútan inn að aðalvél hennar sé dauð og dælur hættar að virka en að verið sé að lensa með handdælu. Á sama tíma var björgunarskipið Einar Sigurjónsson að leggja úr höfn í Hafnarfirði með dælur og mannskap ásamt björgunarbátnum Fiskakletti. Tveir togarar, þeir Hrafn Sveinbjarnarson og Baldvin Njálsson, sem voru á nálægum slóðum höfðu einnig tilkynnt að þeir ætluðu að halda á staðinn en að þeir væru ekki með neinar færanlegar dælur um borð.

Léttabátur af Hrafni Sveinbjarnarsyni var komin á staðinn en illa gekk að nálgast skútuna. Þyrla Landhelgisgæslunnar kom skömmu síðar en gat ekki athafnað sig vegna mastra á skútunni og sjólags. Því reyndist þyrlubjörgun ekki möguleg nema að fólkið færi fyrst frá borði og um borð í björgunarbát. Var því ákveðið að bíða átekta eftir að björgunarskip og bátar kæmu á svæðið og þyrlan yrði stand-by í Keflavík á meðan. Áætlað var að fyrstu björgunarbátarnir kæmu á staðinn rétt fyrir klukkan eitt eftir miðnætti.

Read the rest of this entry »

Comments Comments Off on MAYDAY-MAYDAY-MAYDAY

Um ellefuleytið voru björgunarsveitir kallaðar út vegna leitar að konu. Þegar þetta er ritað eru 17 meðlimir björgunarsveitar Hafnarfjarðar úti á 4 bílum ásamt Bb. Fiskakletti og einu hundateymi. Uppfært 22:46 Allir hópar komnir aftur í hús alls voru 19 meðlimir sveitarinnar sem tóku þátt í dag og kvöld. Haldið verður áfram að leita á morgun. 

Comments Comments Off on Útkall F2 gulur-Leit innanbæjar

Félagar sveitarinnar stóðu í ströngu síðastliðna helgi. Nýliðar fóru í vetrarferð þar sem gist var í snjóhúsum. Sleðaflokkur fór í æfingarferð í Bláfjöllum. Kristín og sporhundurinn Perla fóru á æfingu með leitarhundum SL á Ólafsfirði. Tveir meðlimir sjóflokks BSH voru á áhafnarnámskeiði björgunarskipa.  Einnig var  einn meðlimur sveitarinnar á fimm daga fagnámskeiði í fjallamennsku sem lauk á sunnudagskvöld.

Ísklifur í Villingadal á fagnámskeiði í fjallamensku

Comments Comments Off on Annasöm helgi hjá Björgunarsveit Hafnarfjarðar

klukkan 22:34 Bárust félögum Björgunarsveitar Hafnarfjarðar þau boð að Boeing 757 þota væri að koma inn til lendingar á Keflavíkurflugvelli með bilaðan vökvabúnað. mættu 13 félagar uppí hús ásamt þremur einstaklingum í hússtjórn og einnig mönnuðu fimm manns björgunarskipið Einar Sigurjónsson. rúmum 15 mínutum síðar var aðgerðin afturkölluð.

Boeing 757 (Myndin tengist fréttinni ekki)

Comments Comments Off on Útkall Neyðarstig Rauður