Archive for the “Sporhundahópur” Category

Sporhundur við vinnu Mynd frá Öskju

Sporhundur við vinnu
Mynd frá Öskju

Sporhundar sveitarinnar sjást á ferð og flugi um höfuðborgarsvæðið þessa dagana. Mikið er um æfingar en Þórir umsjónarmaður hundana og þjálfari æfir tíkurnar samviskusamlega til skiptis þó megnið af tíma hans fari í að byggja upp reynsluna hjá Urtu sem er yngri tíkin og eingöngu búin að sinna útköllum í örfáa mánuði. Eldri tíkin Perla er nú talin vera á hátindi miðað við aldur og reynslu okkar af endingu og nýtingu fyrri hunda. Báðar eru þær blóðhundar og innfluttar sérstaklega til leitar- og björgunarstarfa.

Svo íbúar Hafnarfjarðar og nágrannasveitarfélaga geta búist við að sjá hund með mann í eftirdragi rjúka framhjá sér hvenær sem er :-). Hundarnir eru auðþekktir enda einu blóðhundar landsins og Þórir þekkist auðveldlega á einkennisfatnaði björgunarsveitanna. Áhersla hjá Þóri er á innabæjarleitir þar sem áreitið er mikið og mikið um utanaðkomandi truflanir. Þetta reynir talsvert á athyglisgáfur og einbeitingu hundanna en blóðhundar eru mjög einbeittir í vinnu sinni og góðir í að leiða truflun hjá sér séu þeir rétt þjálfaðir. Stór hluti útkalla fyrir sporhundanna er einmitt innanbæjarleitir og því mikilvægt að þeir séu sterkir á þessu sviði.

Við þökkum fyrir alla tillitssemi og velvild sem við finnum fyrir í garð hundanna við æfingar. Tillit við hundana hjálpar til við æfingar og segir Þórir það aldrei vera vandamál að utanaðkomandi fólk komi og beinlínis trufli æfingarnar. Stundum þurfi hann til dæmis að koma in í anddyri fyrirtækja vegna þess að lyktin af hinum týnda hafi borist þar inn og fær hann alltaf hlýjar viðtökur þó stoppið sé iðulega örstutt.  Við bendum fólki á að vera vakandi fyrir þessu flotta hundateymi í umferðinni, einkum núna í myrkrinu og í jólaumferðinni sem vill þyngjast töluvert í desember.

Comments Comments Off on Sporhundar á ferð og flugi

Neyðarkall 2018

Neyðarkall ársins

Nú er Neyðarkallasalan 2018 langt komin. Félagar í Björgunarsveit Hafnarfjarðar stóðu vaktina dagana 1.-3. nóvember síðast liðinn og seldu lyklakippuna Neyðarkall í öllum helstu verslunum í Hafnarfirði, salan gekk afar vel enda er okkur alltaf vel tekið af Hafnfirðingum.

Í tilefni 90 ára afmælis Slysavarnarfélagsins Landsbjargar minnumst við liðinna tíma og er kallinn klæddur í stíl fyrri tíma, gulan stakk og með broddstaf. Allar lyklakippur seldust upp hjá okkur rétt um kl. 15 á laugardeginum en vegna mikillar eftirspurnar höfum við pantað nokkra auka litla kalla og geta áhugasamir nálgast þá með því að hringja í 565-1500 eða senda okkur tölvupóst. Einnig fengum við tvær vinasveitir af landsbyggðinni í heimsókn og stóðu bæði Björgunarfélagið Blanda og Björgunarsveitin Strandasól með okkur á völdum stöðum.

Einng vorum við með stóra neyðarkallinn líkt og fyrri ár, sala á þeim hefur gengið vonum framar enda eigum við marga góða bakhjarla í fyrirtækjum bæði í Hafnarfirði og á höfuðborgarsvæðinu. Í ár sem endranær svöruðu Hafnfirðingar kallinu. Þeir sem vilja nálgast stóran neyðarkall mega hafa samband með tölvupósti á netfangið starfsmadur@spori.is

Fjáröflunin er sveitinni afar mikilvæg og stendur ásamt öðrum fjáröflunum undir árs rekstrarkostnaði einingarinnar. Þökkum kærlega stuðninginn og velviljann um helgina.

Við höfum sett nokkrar myndir í myndasafn inn á opna Facebook síðu sveitarinnar. Myndir eru stöðugt að bætast við safnið enda voru þetta skemmtilegir dagar.

Comments Comments Off on Neyðarkall 2018

Perla, blóðhundur í eigu BSH, að spora, mynd Alis Dobler
Perla að spora, mynd Alis Dobler

Dagana 18.-20. apríl s.l. hélt BSH sporanámskeið fyrir hundamenn og teymi. Leiðbeinandi var Alis Dobler hundaþjálfari frá Sviss með menntun frá GAK9 í Bandaríkjunum. Námskeiðið var haldið í Hfn og nágrenni. 6 hundateymi tóku þátt og 4 áhorfendur voru með allan tímann auk þess sem örfáir aðrir gestir kíktu við í stuttar heimsóknir. Þátttakendur voru ma. frá BSH (3), Bjsv. Ársæl Rvk (1), Bjsv. Sigurvon (1), Bjsv. Skagfirðingasveit (1), Hjsv. Skáta Garðabæ (2) og 2 voru utan sveitar.

Námskeiðið hófst á laugardegi í björgunarmiðstöðinni Klett í Hfn þar sem Alis fór í gegnum kynningu á sér og fyrirkomulagi námskeiðsins, þátttakendur kynntu sig svo og sögðu frá reynslu sinni og hundsins síns. Farið var með hópinn á Vigdísarvelli og Krísuvíkurleið þar sem lögð voru grunnspor á lítið megnuðu svæði til að sjá grunnþekkingu hundanna og stöðu teymanna. Fljótlega eftir hádegi fengum við uppkall og útkallsbeiðni á TETRA þar sem við vorum nálægt slysstað. Spori Ásbjörn og Ársæll Theodór voru næstir og fóru til að kanna aðstæður. Á vettvangi, sem var eingöngu nokkur hundruð metra frá okkur, blasti við þeim bifreið sem oltið hafði af veginum og var gjörónýt og eldri hjón sem komist höfðu úr bifreiðinni. Ásbjörn og Theodór veittu hjónunum fyrstu hjálp en þau voru í miklu sjokki og kvörtuðu undan eymslum í baki og hálsi, um var að ræða erlenda ferðamenn. Ásbjörn og Theodór hlúðu að hjónunum þar til lögregla og sjúkabifreið komu á vettvang og tóku við.  Seinni partinn færðum við okkur í Vallarhverfið og vorum í iðnaðarhluta hverfisins. Þar sem auðveld grunnspor voru lögð fyrir teymin og geta hundanna á malbiki skoðuð.

Sunnudeginum var öllum eytt í borgarlandslagi og með hörðu undirlagi. Farið var í gegnum grunnaðferðir í sporlagningu og rakningu á hörðu yfirborði og hvernig aðstæður vinna með hundinum og hvernig leggja má spor gagngert til þess að hann upplifi og læri ómeðvitað hvar líklegast sé að finna slóð eða spor eftir manneskju við erfiðar aðstæður. Allir þátttakendur fengu verkefni við sitt getustig.

Mánudeginum var tvískipt, fyrri hlutanum var varið í íbúðarhverfi og í kringum Víðistaðatún með öllum þeim truflunum sem borgarlandslag býður upp á. Hundarnir réðu misvel við þær aðstæður og þurftu sumir frá að hverfa og færast í auðveldari verkefni. Síðari hluta dagsins var varið við æfingar upp við Garðaholt þar sem áreitið og erfiðleikastigið var aftur lækkað og öll teymin fengu krefjandi verkefni sem gat ekki misheppnast til þess að allir færu heim með jákvæða minningu af verkefnunum.

Lærdómurinn af námskeiðinu var mikill, einkum má segja að aðferðir við sporlagningu skipta mestu máli í upphafi þjálfunar og að erfiðleikastigið sé ekki aukið of þétt til þess að hundurinn missi ekki sjálfstæðið eða getuna til að leysa verkefnið og þurfi að leita til eiganda eftir stuðning eða handleiðslu. En eitt það besta var að við vorum með hunda af öllum stigum, hund sem aldrei hafði sporað og allt upp í þaulvana sporara svo við fengum að sjá og upplifa mörg erfiðleika- og þjálfunarstig. Þá fengum við að sjá ólíkar aðferðir við að verðlauna hunda fyrir vinnu og farið var í gegnum mikilvægi á að finna réttan hvata/verðlaun fyrir hundana. Við kynntumst öðrum hundamönnum sem geta unnið með okkur í framtíðarverkefnum og hjálpað hvort öðru að komast á næsta stig þjálfunar.

Björgunarsveit Hafnarfjarðar þakkar öllum þátttakendum fyrir komuna, Alis Dobler kærlega fyrir að koma og leiðbeina og Icelandair Hotels fyrir veittan stuðning.

Ætlunin er að endurtaka námskeiðið í maí/júní 2016 og einnig halda áfram með teymin þar sem frá var horfið.

Fleiri myndir frá námskeiðinu má m.a. finna á Facebook.

Perla fær verðlaunin sín, mynd Alis Dobler

Perla fær verðlaun fyrir að spora uppi mann, mynd Alis Dobler

 

 

Comments Comments Off on Sporhundanámskeiði lokið

Dagana 18.-20. apríl n.k. verður sporhundaþjálfari á landinu á vegum Björgunarsveitar Hafnarfjarðar frá GAK9 (USA) og K-9 SEARCH & RESCUE ASSOCIATION (K-9 SRA) í Sviss. Á námskeiðinu verður einkum farið í sporaleit á fjölförnum svæðum sbr. innanbæjarleitir með áherslu á „trailing“ þjálfun eða sporrakningu á hörðu yfirborði. Áhersla er lögð á að aðstoða þjálfarann við að þekkja sporahegðun hunda og lesa í aðstæður.  5-6 hundateymi komast að á námskeiðinu og amk. 10 áhorfendur. Þátttakendur þurfa ekki að hafa reynslu af sporavinnu og allar hundategundir eru velkomnar.

Um þjálfarann:
Alis Dobler er með Mastersgráðu frá háskólanum í Lausanne í réttarvísindum og starfar með lögreglunni í Zurich í Sviss. Alis hefur verið viðloðandi hundaþjálfun frá unga aldri og lauk hundaþjálfaranámi 2008, í kjölfarið hóf hún að þjálfa sporhunda og lauk kennsluréttindum frá GAK9 í Bandaríkjunum 2013. Hún er með réttindi til að leita að týndu fólki og til sérhæfðrar leitar að flóttamönnum og vopnuðum og hættulegum aðilum, auk þess að hafa leiðbeinenda- og dómararéttindi fyrir sporaleit. Alis vinnur með blóðhund í dag en hefur unnið með fleiri tegundir.

Námskeiðið fer fram á höfuðborgarsvæðinu.
3 dagar 18.-20. apríl verð 35.000 kr. pr. teymi.
Áhorfendur án hunds verð 10.000 kr.

Nánari upplýsingar veitir Kristín í síma 8684136 / kristin@leitarhundar.is
Skráning óskast send á netfangið með upplýsingum um hundateymið eða áhorfandann.

Áhugavert fyrir þátttakendur að skoða: www.gak9.com,  www.k9-manhunters.ch og www.k9-sra.ch

Comments Comments Off on Sporanámskeið 18.-20. apríl 2015

Í byrjun október mánuðar fór ég í námsferð til Denver í Bandaríkjunum til að kynna mér hundaþjálfun. Ég sótti tvö námskeið og var dvölin 7 dagar að lengd. Ég var með svokallaðan áhorfenda aðgang að námskeiðunum en eins og þið þekkið er stórmál að fara með hunda út fyrir landsteinana og heim aftur. Ferðin var farin á vegum Björgunarsveitar Hafnarfjarðar og í samstarfi við Leitarhunda Slysavarnafélagins Landsbjargar, með mér voru tveir þjálfarar á þeirra vegum úr Ársæli og úr Gerpi.

Fyrra námskeiðið var svokallað “HRD” námskeið en þar var kennd leit að látnu fólki og líkamsleifum. Námskeiðið var 2 dagar og var byggt upp á raunverulegum verkefnum sem hundamenn fengu að glíma við. Leiðbeinandi var Brad Dennis frá Klaas Kids Foundation. Farið var í gegnum helstu stig niðurbrots í líkamanum og lyktina sem verður til við hvert stig. Þá var farið í umhverfisáhrif og aðra áhrifa þætti sem geta hraðað eða hægt á niðurbrotinu. Æfingar voru settar upp í vatni, víðavangi, almenningsgarði, utan á byggingum, húsleitir og bílaleitir. Margar tegundir hunda voru á námskeiðinu og var mjög áhugavert að sjá þá glíma við ólík verkefni.

Seinna námskeiðið var sporleitar námskeið. Lögð var áhersla á innanbæjarleitir eða Urban Trailing. Námskeiðið var 4 dagar og var það nær eingöngu verklegt. Leiðbeinandi var John Salem fyrrverandi lögreglumaður og blóðhundaþjálfari og var námskeiðið haldið á vegum Georgia K9. Hundamenn voru á ýmsum stigum þjálfunar, frá byrjendum upp í lengra komna. Þeir fengu allir raunveruleg dæmi og mikil handleiðsla var með uppsetningu á æfingum. Þá var einnig lögð áhersla á að hundarnir væru þjálfaðir til að taka lykt af hinum týnda af ólíkum hlutum og við ólíkar aðstæður (en ekki eingöngu einblína á að nota fatnað af viðkomandi þar sem því væri ekki alltaf hægt að koma við) t.d. var notast við skó, minnisblokk, vatnsflösku, kaffibolla, dagblaðabunka, hurðarhún, sæti svo eitthvað sé nefnt. Námskeiðið var mjög áhugavert og á eftir að koma að góðum notum við vinnu í sporhundahópnum. Þá var gaman að því að fá að taka aðeins í hundataum en sett var upp verkefni fyrir mig, stutt slóð, sem ég rakti með 10 ára gömlum Golden Retriever hundi.

Blóðhundurinn okkar Perla við æfingar í október 2013

Blóðhundurinn okkar Perla við æfingar í október 2013

Tvær gullnar setningar hafði ég upp úr krafsinu og koma þær frá sitthvorum hundaþjálfaranum og af sitthvoru námskeiðinu:
We train to be MISSION CAPABLE not to simply PASS A TEST…” og hin var “Train like you fight and fight like you train“.
Með öðrum orðum að maður á að byggja alla þjálfun upp á verkefnum sem eru sem næst raunveruleikanum og æfa fyrir raunveruleikann en ekki bara til að standast próf og svo að temja sér fagleg vinnubrögð bæði við æfingar og í raunverulegum verkefnum þannig að úr verði rútína sem hægt er að framkvæma án þess að hugsa.

Bestu kveðjur,
Kristín Sigmarsdóttir.

Comments Comments Off on Námsferð til Denver, hundaþjálfun