Archive for the “Uld. Björgúlfur” Category

Keilir_24_11_2018

Laugardaginn 24. nóvember fóru ofur hressir og duglegir nýliðar úr N1 ásamt unglingadeildinni Björgúlf og nokkrum fullgildum félögum í gönguferð á Keili.

Farið var úr húsi klukkan 10:15 á laugardagsmorgunn í þvílíkri rjómablíðu. Þar sem veður var bjart og gott var útsýnið alla leiðina með eindæmum gott. Hópurinn kom tilbaka um 3 tímum síðar.

N1 eru þeir nýliðar sem hófu að starfa með sveitinni fyrr í haust, lengra komnir nýliðar svokallaðir N2 hófu hins vegar að starfa síðasta vetur.

Myndir frá Klöru Guðmundsdóttur hafa verið birtar á myndasíðu okkar á Facebook.

Comments Comments Off on Gönguferð nýliða og unglingadeildar

Neyðarkall 2018

Neyðarkall ársins

Nú er Neyðarkallasalan 2018 langt komin. Félagar í Björgunarsveit Hafnarfjarðar stóðu vaktina dagana 1.-3. nóvember síðast liðinn og seldu lyklakippuna Neyðarkall í öllum helstu verslunum í Hafnarfirði, salan gekk afar vel enda er okkur alltaf vel tekið af Hafnfirðingum.

Í tilefni 90 ára afmælis Slysavarnarfélagsins Landsbjargar minnumst við liðinna tíma og er kallinn klæddur í stíl fyrri tíma, gulan stakk og með broddstaf. Allar lyklakippur seldust upp hjá okkur rétt um kl. 15 á laugardeginum en vegna mikillar eftirspurnar höfum við pantað nokkra auka litla kalla og geta áhugasamir nálgast þá með því að hringja í 565-1500 eða senda okkur tölvupóst. Einnig fengum við tvær vinasveitir af landsbyggðinni í heimsókn og stóðu bæði Björgunarfélagið Blanda og Björgunarsveitin Strandasól með okkur á völdum stöðum.

Einng vorum við með stóra neyðarkallinn líkt og fyrri ár, sala á þeim hefur gengið vonum framar enda eigum við marga góða bakhjarla í fyrirtækjum bæði í Hafnarfirði og á höfuðborgarsvæðinu. Í ár sem endranær svöruðu Hafnfirðingar kallinu. Þeir sem vilja nálgast stóran neyðarkall mega hafa samband með tölvupósti á netfangið starfsmadur@spori.is

Fjáröflunin er sveitinni afar mikilvæg og stendur ásamt öðrum fjáröflunum undir árs rekstrarkostnaði einingarinnar. Þökkum kærlega stuðninginn og velviljann um helgina.

Við höfum sett nokkrar myndir í myndasafn inn á opna Facebook síðu sveitarinnar. Myndir eru stöðugt að bætast við safnið enda voru þetta skemmtilegir dagar.

Comments Comments Off on Neyðarkall 2018

Dagana 17. til 18. maí skellti unglingadeildin sér í gönguferð þar sem áhersla var lögð á að ferðast með allan farangur sem til þurfti á bakinu ásamt því að gista í tjaldi. Voru það fimm vel útbúnir unglingar sem mættu hress upp á Flatahraun á föstudegi tilbúin fyrir gönguna. Gísli Sigurður skutlaði hópnum upp í Kaldárbotna þar sem gangan hófst. Gengið var kringum Helgafell og niður í Valaból á föstudeginum þar sem tjaldað var tjöldum og farið tímalega í háttinn. Á laugardeginum var vaknað snemma, gengið frá öllu og fengið sér morgunmat eftir vindasama nótt. Síðan var farið að síga í klettunum við Valaból og allir orðnir klárir í siginu eftir að hafa gert þetta nokkrum sinnum í vetur. Eftir sigið var gengið Selvogsgötuna yfir í neyðarskýlið í mótvindi svo það var gott að kíkja inn í neyðarskýlið í nesti þar til hún Vigdís sótti hópinn og fór með hann aftur heim eftir góða göngu :)

Comments Comments Off on Gönguferð Björgúlfs

Thelma Ýr hress á Dalvík.

Ungingadeildin skellti sér á Dalvík um nýliðna helgi til þess að fara á skíði. Lagt var af stað á föstudegi klukkan 18.00 og var hópurinn kominn á Dalvík rétt um miðnætti. Á laugardeginum mætti sólin á svæðið ásamt því að heitt var í veðri. Þá var ekkert annað í stöðunni en að sleppa hlýju fötunum og hægt var að renna sér í brekkunni á stuttermabol og léttum buxum. Eftir að skíða í þessari rjómablíðu þá var skellt sér í sund í flottu íþróttamiðstöðinni og slappað af. Um kvöldið var síðan sameiginleg pulsuveisla og síðan fóru margir út að renna á rassaþotum, kútum og ruslapokum. Á sunnudeginum var síðan skíðað frá kl 10.00 – 14.00 og síðan gengið frá og keyrt í bæinn. Í rútunni á leiðinni heim var mun minna um tal því allir voru þreyttir og sáttir eftir góða helgi á skíðum. Gaman er líka að segja frá því að innan hópsins fór fram óformleg skíðakennsla, þar sem þeir sem meira kunnu kenndu þeim sem minni reynslu höfðu af því að skíða.

Ferðin heppnaðist vel í alla staði og erum við umsjónarmennirnir og aðrir sem voru með í för stollt af hópnum sem var til fyrirmyndar og mætti segja að unglingarnir hafi haft náungakærleikan að leiðarljósi. Þetta er góður hópur af krökkum sem á eftir að rætast vonandi enn meira úr innan BSH í komandi framtíð.

Hópmynd af öllum sem voru í ferðinni á Dalvík.

Comments Comments Off on Skíðaferð Björgúlfs á Dalvík

Unglingadeildin Björgúlfur verður 30 ára laguardaginn 11. febrúar. Haldið verður uppá afmælið í húsnæði Björgunarsveitar Hafnarfjarðar, Flatahrauni 14, fimmtudaginn 9. febrúar kl 20. Sýndar verða myndir úr starfi deildarinnar undanfarin ár. Léttar veitingar í boði. Fyrrum félagar Björgúlfs og velunnarar deildarinnar eru hjartanlega velkomnir.

Comments Comments Off on Björgúlfur 30 ára