logo.gifBSH barst útkall kl. 13:04 þann 8. nóv síðast liðinn. Sjóslys í Hvalfirði við Búðasand, kajak ræðari í vanda. Sveitin var beðin að senda af stað allar sjófærar bjargir. Útkallið varaði stutt en ræðarinn var kominn í land um tuttugu mínútum eftir að neyðarboð barst.


logo.gifÚtkall barst sveitinni þriðjudaginn 6. nóv kl. 16:14.  Leit var að hefjast í Reykjavík að aðila sem saknað var. Útkallshæfir félagar í sveitinni brugðust hratt við og fóru meðal annars undanfarar, sporhundahópur og sérhæfðir leitarhópar úr húsi. Aðgerð var afturkölluð rétt fyrir klukkan hálf níu sama dag er viðkomandi fannst.


Neyðarkall 2018

Neyðarkall ársins

Nú er Neyðarkallasalan 2018 langt komin. Félagar í Björgunarsveit Hafnarfjarðar stóðu vaktina dagana 1.-3. nóvember síðast liðinn og seldu lyklakippuna Neyðarkall í öllum helstu verslunum í Hafnarfirði, salan gekk afar vel enda er okkur alltaf vel tekið af Hafnfirðingum.

Í tilefni 90 ára afmælis Slysavarnarfélagsins Landsbjargar minnumst við liðinna tíma og er kallinn klæddur í stíl fyrri tíma, gulan stakk og með broddstaf. Allar lyklakippur seldust upp hjá okkur rétt um kl. 15 á laugardeginum en vegna mikillar eftirspurnar höfum við pantað nokkra auka litla kalla og geta áhugasamir nálgast þá með því að hringja í 565-1500 eða senda okkur tölvupóst. Einnig fengum við tvær vinasveitir af landsbyggðinni í heimsókn og stóðu bæði Björgunarfélagið Blanda og Björgunarsveitin Strandasól með okkur á völdum stöðum.

Einng vorum við með stóra neyðarkallinn líkt og fyrri ár, sala á þeim hefur gengið vonum framar enda eigum við marga góða bakhjarla í fyrirtækjum bæði í Hafnarfirði og á höfuðborgarsvæðinu. Í ár sem endranær svöruðu Hafnfirðingar kallinu. Þeir sem vilja nálgast stóran neyðarkall mega hafa samband með tölvupósti á netfangið starfsmadur@spori.is

Fjáröflunin er sveitinni afar mikilvæg og stendur ásamt öðrum fjáröflunum undir árs rekstrarkostnaði einingarinnar. Þökkum kærlega stuðninginn og velviljann um helgina.

Við höfum sett nokkrar myndir í myndasafn inn á opna Facebook síðu sveitarinnar. Myndir eru stöðugt að bætast við safnið enda voru þetta skemmtilegir dagar.


kjotsupa_2018Útkallshæfir félagar tóku sig til sunnudaginn 4. nóv síðast liðinn og hittust í húsi og útbjuggu risa skammt af kjötsúpu. Hópurinn hittist kl. 14 og skar niður hráefni í súpuna, sauð hana og pakkaði í hæfilega skammta. Kjötsúpan var síðan fryst fyrir komandi vetur og verður hægt að nýta hana í útköllum, ferðum og öðru sem upp kemur.

Fátt gefur meiri kraft en alvöru íslensk kjötsúpa og viljum við þakka öllum sem lögðu hönd á plóg kærar þakkir fyrir forsjárhyggjuna og fyrir að gefa tímann sinn en í heildina tók verkefnið um 4 klst.


mbl.is/​Krist­inn Magnús­son

mbl.is/​Krist­inn Magnús­son

Rétt um kl. 1 í nótt, aðfaranótt laugardagsins 3. nóvember,  svaraði Björgunarsveit Hafnarfjarðar útkallsboði vegna birgðaskips sem var að stranda við Helguvík. Þyrla Landhelgisgæslunnar kom 15 manna áhöfn og hafnsögumanni frá borði. Hlutverk okkar manna var að tryggja vettvang. Undir morgun var ljóst að lítið yrði aðhafst fyrr en í birtingu og þegar veður lægði og voru okkar menn því sendir heim.
Nánar má lesa um atburði næturinnar á fréttamiðlum t.d. á RÚV.is, þá eru þar einnig athyglisverð myndskeið af vettvangi í fréttinni: http://www.ruv.is/frett/ekki-forsvaranlegt-ad-radast-i-adgerdir


logo.gifFimmtudaginn 1. nóv 2018 um kl. 16:12 barst útkall til Björgunarsveitar Hafnarfjarðar vegna lendingar flugvélar á Keflavíkurvelli. Flugvélin var með slökkt á öðrum hreyflinum. Fjöldi félaga svaraði boðinu enda voru margir þegar í vinnu fyrir sveitina við sölu á Neyðarkalli og því nær höfuðstöðvum en ella. Vélin lenti án vandkvæða nokkrum mínútum eftir að útkall barst og fóru þá félagar aftur til vinnu eða á sölustaði eftir atvikum. Allt er gott sem endar vel.


��