Aðalfundur sveitarinnar verður haldinn þriðjudaginn 31. maí klukkan 18:30 í húsnæði sveitarinnar við Hvaleyrarbraut 32.
Dagskrá er samkvæmt lögum sveitarinnar.

Kveðja,
stjórn Björgunarsveitar Hafnarfjarðar


Komið þið sæl og gleðilegt ár, á morgun mánudag er sveitarfundur sem hefst kl 20.00. Á dagskrá er uppgjör úr fjáröflunum. Vetrarferð, fjáraflanir almennt, hvernig gekk að manna þær og svo framvegis, hugrenningar stjórnar á nýju ári, hvað er framundan, önnur mál úr sal.

Rúsínan í pylsuendanum er svo fyrirlestur sem Björn Oddsson mun halda um sprungukortin sem gerð eru fyrir alla stærstu jökla landsins. Hann mun fjalla um tilurð kortanna og hvar má nálgast þau, en aðal inntakið er hvernig þau nýtast best og notuð verða raunveruleg dæmi sem sýna hversu vel þau virka í raun.

Flottur fundur í farvatninu mætum öll hress og kát.
Kveðja stjórn


Nú höfum við opnað alla flugeldamarkaði okkar. Hér má sjá kort af okkar sölustöðum og upplýsingum um opnunartíma.

Annað kvöld munum við skjóta upp nokkrum vel völdum vörum fyrir utan sölustað okkar við Hvaleyrarbraut, ekið inn frá Lónsbraut.

Við höfum dregið út úr lukkunúmeraleiknum okkar og má finna vinningsnúmerin á sölustöðum okkar.


Verið að hjálpa Gumma að græja sig fyrir köfunSeinustu tvær helgar hefur verið nóg um að vera í Njarðvíkurhöfn en kafarar frá SL hafa verið þar á leitarköfunarnámskeiði.
Nokkur ár eru síðan að seinast var haldið námskeið í leitarköfun og því kærkomið að fjölga aðeins í hópunum og fá inn nýja meðlimi.

Að þessu sinni tóku tveir kafarar frá BSH, þau Guðmundur Sveinbjörn og Elíza Lífdís, þátt, sem og þrír kafarar frá BSS. Í heildina vorum við þó mest 11 með leiðbeinendum, línumönnum og bátafólki og því ljóst að kafarar þurfa að vera í góðu samstarfi við sjóflokk.

Námskeiðið gengur eins og nafnið gefur til kynna að miklu leiti út á það að kafa og leita en þó eru margir þættir sem að þarf að hafa á hreinu áður en stokkið er út í.
Í leitarköfun er kafarinn tengdur við yfirborðið með línu þar sem að svokallaður línumaður (e. tender) heldur í hinn endann og hefur samskipti við kafarann með línumerkjum. Æfðum við þau í þurræfingum á landi áður en haldið var niður á bryggju.

Línumaður sér um að fylgjast með því hvað kafarinn er að gera, að hann sé að leita það svæði sem að honum er ætlað að leita, gefa honum leiðbeiningar hvert hann á að fara og gæta öryggis kafarans. Allir kafara æfa sig í að vera línumenn og þjálfast þannig í því að vera á báðum endum.

Kafararnir þurfa einnig að æfa sig í því að leita í litlu sem engu skyggni og að starfa sem línumenn við misgóðar aðstæður.
Sú var einmitt raunin seinustu helgi þegar við fengum allt frá glampandi sól og logni (já þið lásuð rétt, það var logn á Reykjanesinu) yfir í slyddu og lemjandi norðaustanátt. En það er nú bara veruleikinn sem að við búum við og því ágætt að þjálfast í því hvernig við tökumst á við mismunandi veðráttu enda að ýmsu að hyggja þegar þú ert með blautan kafara sem að þarf að bíða uppi á bryggju á milli kafanna.

Seinasta daginn á námskeiðinu höfðu Suðurnesjamenn komið bíl fyrir í höfninni og fengum við að kafa í hann og æfa okkur á þeim aðstæðum.

Náið samstarf er á milli köfunarhóps og sjóflokks BSH enda samofið starf við leit á sjó. Allir meðlimir köfunarhóps BSH starfa einnig sem sjóflokksmeðlimir og er hópurinn því þéttur. Köfunarhópur BSH samanstendur nú af sjö köfurum með mis mikla reynslu, allt frá rúmu ári upp í áratugi og er það von okkar að hópurinn haldi áfram að dafna.

Þökkum við Suðurnesjasveitinni kærlega fyrir samvinnuna á námskeiðinu sem og leiðbeinendum fyrir vel heppnaðar helgar á hafsbotni.


Neyðarkallinn í ár er björgunarsveitarmaður í bílaflokki.
Björgunarsveitarmenn í bílaflokki sjá til þess að ökutæki sveitanna séu alltaf í fullkomnu lagi og tilbúin til notkunar þegar útkall berst. Auk þess sjá meðlimir bílaflokks gjarnan um akstur þeirra til og frá vettvangi og á æfingum.
Salan fer fram 5.-7. nóvember og verða félagar Björgunarsveitar Hafnarfjarðar staðsettir víðs vegar um Hafnarfjörðinn.
Það hefur verið nóg um að vera hjá okkur síðustu vikur við að taka þátt í hinum ýmsu útköllum. Þess á meðal er leitin að Herði Björnssyni, skipsstrand við Álftanes, óveður og margt fleira. Einnig voru meðlimir fjarskiptahóps í viðbragðsstöðu og tilbúnir í flug vegna jarðskjálftanna í Afghanistan.
Við verðum með kallinn til sölu við Fjarðarkaup, Bónus og Krónu verslanirnar, ÁTVR og N1 Lækjargötu.
Takk fyrir að standa við bakið á okkur!


Um þessar mundir eru tveir félagar úr fjarskiptahóp sveitarinnar að sinna flóttamannaaðstoð í Grikklandi. Þeir Ingólfur Haraldsson og Lárus Steindór Björnsson fóru út 14. október  á vegum regnhlífasamtakana NetHope. Samtökin sjá um að koma á eða bæta fjarskipti til að greiða fyrir samstarfi milli viðbragðsaðila. Þeir Ingólfur og Lárus munu reyna að koma upp hleðslustöðum fyrir farsíma og auka þráðlaust netsamband í flóttamannabúðum. Verkefni Ingólfs og Lárusar felst í að veita flóttafólki á leið sinni um Evrópu betri aðgang að upplýsingum með því að veita því aðgang að netinu á þeim stöðum sem það stoppar á.

Hér eru smá fréttir frá þeim og því sem þeir hafa verið að gera.

Við lentum hérna á miðvikudegi í síðustu viku og strax á fimmtudag fór Lárus ásamt David frá NetHope út á eyjuna Lesbos. David var búinn að vera hér í 2 vikur þegar við komum. Á eyjunni Lesbos er megin flóttamannastraumurinn inn til Grikklands en það eru 4km á milli eyjunnar og Tyrklands. Flestir flóttamenn koma að landi á norðan verðri eyjunni og þurfa síðan að koma sér til Mytiline sem er stærsti staðurinn á eyjunni en þarna á milli eru 50 til 60 km.  Þarna kemur fólk á milli á gúmmibátum sem eru vægast sagt lélegir, svo þarf það að ganga upp fyrsta kampinn en oftast fær það far með rútu svo í næsta kamp sem er 17km frá og fær svo rútu eða labbar 40km sem eru restin af leiðinni.  Lárus og David skoðuðu og mátu hvar þarf búnað til að fólk komist á netið til að láta vita heim að það sé í lagi og komið yfir.

Á sama tíma var Ingólfur í Aþenu til að byrja með að leita að flóttamannabúðum en þar áttu að vera 3 til 4 og fann hann einn.  Ingólfur fór síðan til Kos á föstudagskvöldið og var þar fram á mánudag við að koma upp búnaði.  Það eru töluvert færri sem koma þar að landi en vandinn er samt mikill þar líka enda minna samfélag sem tekur þar á móti fólki.

Núna erum Ingólfur og Lárus báðir í Aþenu að bíða eftir búnaðuri sem fer að koma. Svo þarf hugsanlega að taka könnun á fleiri eyjum sem eru nálægt ströndum Tyrklands.

Hægt er að skoða myndir á Facebook síðu Björgunarsveitar Hafnarfjarðar.��