Þjálfar og sinnir útköllum þar sem þörf er á aðkomu sporhunda. Mikil vinna er að þjálfa sporhund og viðhalda þjálfuninni og er sú vinna á höndum sporhundaþjálfar hverju sinni. Einnig koma að hverri æfingu 2-3 aðrir félagar sveitarinnar. Að jafnaði eru 4-5 æfingar í viku á hvern hund en oftar ef verið er að þjálfa upp hvolp.


Reynslan hefur sýnt að hreinræktaðir blóðhundar hafa hvað best lyktarskyn og á sveitin nú tvær tíkur Perlu (fædd 2010) og Urtu (fædd 2017). Unnið er að því um þessar mundir að flytja inn þriðju tíkina sem vonandi kemur til landsins í byrjun árs 2021.


Vetis er mikilvægur styrktaraðili sporhundastarfsins og leggur til allt fóður fyrir hundana en þeir fá eingöngu Belcando fóður, frekari upplýsingar varðandi fórðir og aðrar vörur Vetis má sjá Hér
 

Sporhundaþjálfari sveitarinnar er Þórir Sigurhansson.

Saga sporhunda innan Björgunarsveitar Hafnarfjarðar


Sporhundar sveitarinnar hafa skapað sveitinni mikla sérstöðu. Björgunarsveit Hafnarfjarðar er eina Björgunarsveitin á landinu, sem á og notar sporhunda til leitar að týndu fólki. Björgunarsveit Hafnarfjarðar (áður Hjálparsveit skáta Hafnarfirði) hefur þjálfað sporhunda óslitið frá 1960 og hefur því safnast mikil reynsla í þjálfun þeirra.

Sporhundur er þjálfaður til að leita að einum einstakling og kemst á sporið með því að lykta af klæðnaði eða öðrum persónulegum munum þess týnda.
 

Upphafið var að árið 1960 keypti Hjálparsveit skáta Hafnarfirði Blóðhundinn Nonna fullþjálfaðann frá Bandaríkjunum. Hann var þá 10 ára gamall. Það voru Birgir Dagbjartsson og Snorri Magnússon sem tóku að þjálfa Nonna. Fyrsta árið voru haldnar um 200 æfingar, allt í sjálboðavinnu og á þeim árum átti sveitin engin farartæki eða húsnæði. Nonni var geymdur á Jófríðastaðaveginum hjá Klaustrinu. Árið 1963 fékk HSH blóðhundinn Bangsa en hann var ekki hreinræktaður.

​Snorri Magnússon sá um þjálfunina á Bangsa. Bangsi náði að rekja mest um 16 tíma slóð. Á árunum 1966-1970 voru gerðar tilraunir með þjálfun Þýskra fjárhunda til að rekja slóðir manna. Þær tilraunir gáfu ekki góða raun og gátu þessir hundar mest rakið 7-8 tíma slóðir.

​Árið 1970 er svo fenginn hreinræktaður blóðhundur Korri og ári síðar kemur Comet. Snorri Magnússon tekur við þjálfuninni og þjálfar sporhunda sveitarinnar óslitið til loka ársins 2006. Jökull Guðmundsson tók þá við þjálfuninni, síðan Ásgeir Guðjónsson, Kristín Sigmarsdóttir og nú Þórir Sigurhansson. Hundageymsla var byggð í sjálboðavinnu af félögum sveitarinnar við Hraunbrún árið 1971.

​Árið 1975 verða straumhvörf í starfinu en þá veitir Dómsmálaráðuneytið sveitinni fjárhagslegan styrk í sporhundastarfið. Snorri varð upp frá því starfsmaður sveitarinnar. Sveitin ber þó enn allan annan kostnað; kaup á hundum, húsnæði, útköll, æfingar, fjarskiptatæki, bílakost en sveitin leggur til sérstakann bíl fyrir sporhundahóp. Hvalur hf gaf sveitinni alla tíð kjöt eða þar til farið var að notast við sérstakt hundafóður. Vetis er mikilvægur styrktaraðili starfsins og leggur til allt fóður fyrir hundana en þeir fá eingöngu Belcando fóður, frekari upplýsingar varðandi fóðrið og aðrar vörur hjá Vetis má sjá Hér

Útköll

  • ​1970-1978 um 25 útköll að meðaltali
  • 1979-1989 um 35 útköll að meðaltali
  • 1990-1999 um 30 útköll að meðaltali
  • 2000-2005 um 20 útköll að meðaltali

Samtals á árunum 1970-2005 var kallað eftir aðstoð sporhundum sveitarinnar yfir 1000 sinnum og hafa hundar sveitarinnar fundið yfir 100 manns á þessu tímabili. Erfitt er að meta samt árangurinn þar sem oft endar slóð sjávarmál eða á og viðkomandi finnst aldrei. Sporhundar hafa oft gefið lögreglu og leitarstjórnum vísbendingar sem leitt hafa til niðurstöðu. Einnig hafa sporhundar sveitarinnar verið notaðir í hinum ýmsu lögreglu málum. Besti árangur sem náðst hefur hingað til var í maí 1996 þegar blóðhundurinn Trýna rakti slóð konu sem saknað hafði verið í 10 daga.

Frá 1960 hefur sveitin þjálfað 14 blóðhunda.

Nonni (1962/3), Bangsi (1963), Comet (191), Sámur (1978), Perla (1981), Kolur(1983), Lotta(1985), Trýna (1991), Táta (1995), Tinna (1999),  Píla (2002), Perla (2012) Urta (2016) Píla (2020)